21. október 2002
Vetrarstarfið að hefjast
- fyrsti fundur haldinn á sunnudaginn nk.
Vetrarstarf Lionsklúbbs Patreksfjarðar er að fara hefjast.  Undirbúningur hefur þó staðið yfir lengi, m.a. fóru Hjörtur Sigurðarson og Geir Gestsson á námskeið í Munaðarnesi um sl. helgi og lærðu þar margt og mikið og höfðu gaman af.  Ný kjörorð klúbbsins lýsir væntanlega vetrarstarfinu sem verður fjörugt.  Nýja stjórnin er skipuð þeim Halldóri Þórðarsyni, formanni, Geir Gestssyni, ritara og Óskari Herði Gíslasyni, gjaldkera.  Varaformaður er Guðmundur Óskar Hermannsson.  Dagskrá vetrarstarfsins er komin á vefinn.

12. október 2002
Sigurgangan heldur áfram
- nú var kvenfélagið lagt af velli.
Fyrsta kvöldið af fjórum í spurningakeppni Blakks og Unnar var haldið í kvöld.  Þar kepptu m.a. Lionsklúbbur Patreksfjarðar við Kvenfélagið Sif.  Kvenfélagskonur virtust vera hafa sigur í lokin en með dæmalausri elju og keppnisskapi og að sjálfsögðu dyggum stuðningi úr sal unnu hinir þrír fræknu Vitringar með því að leggja undir stig á loka metrunum.  Er óhætt að segja að okkar menn verða skeinuhættir í næstu keppnum.

1. október 2002
Viðurkenning  frá alþjóðaskrifstofu fyrir félagafjölgun
- hlutfallslega mikil fjölgun í LP á liðnu starfsári.
Í bréfi sem undirritað er af J. Frank Moore III, fráfarandi alþjóðaforseta Lions,  óskar hann LP til hamingju með árangurinn og biður okkur að þiggja merki til að setja í fánann okkar (sjá mynd).  Segir Frank að klúbburinn hafi uppfyllt þau markmið starfsársins að fjölga í Lions með sameiginlegu átaki.  Með því að fjölga félögum erum við að gera betur í að hjálpa öðrum.

19. mar 2002
Hilmar Jónsson Lionsfélagi ársins 2001-2002
- Monrach Chevron merki afhentFrá vinstri, Hilmar Jónsson, Kristján Páll Vigfússon, Barði Sæmundsson, Jakob Jónsson og Guðfinnur Pálsson.
Á 12. fundi ársins, sem haldinn var á Rabbabarnum laugardaginn 16. mars, var Hilmar Jónsson útnefndur Lionsfélagi ársins.  Er Hilmar vel að tiltlinum kominn en hann hefur starfað vel og ötullega fyrir klúbbinn í fjölda ára, en hann hefur verið næst lengst félaga í klúbbnum eða frá 1973.  Á fundinum voru einnig afhent Monrach Chevron merki til eftirtalra félaga:  Guðfinnur Pálsson, 20 ára, Jakob Jónsson, 15 ára, Barði Sæmundsson og Kristján Páll Vigfússon, 10 ára.

4.mar. 2002
Sigur í spurningakeppni !
- Lionsmenn eru gáfumenn hinir mestu (í það minnsta þessir þrír)
Kristján Páll, Símon og Jakob íbyggnir á svip.Þeir stóðu sig frábærlega, Kristján Páll, Símon og Jakob, í spurningakeppni Björgunarsveitarinnar Blakks og Slysavarnardeildarinnar Unnar, en þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu alla andstæðinga sína með glæsibrag.  Á lokakvöldinu kepptu okkar menn við lið Odda og náttúrulega rúlluðu þeim upp í úrslitakeppninni.  Eitthvað voru menn feimnir með að lýsa stuðningi við félaga okkar en þegar ljóst var hvert stefndi jókst stuðningurinn margfallt og ber að þakka það.

19. feb. 2002
Lionsklúbbur Patreksfjarðar 40 ára í dag !
- fjörutíu ára farsælt starf að baki en nóg verkefni framundan

Lionsklúbbur Patreksfjarðar á 40 ára afmæli í dag, 19. febrúar.  Um síðustu helgi gerðu félagar sér glaðan dag í tilefni tímamótanna og héldu mikla veislu og tókst hún í alla staði vel til.  Eftir að hlaðborðinu hafði verið gerð góð skil voru stofnfélagar heiðraðir, þeir Bragi Thoroddsen, sem enn er félagi og var hann gerður að sérréttindafélaga, og Páll Janus Pálsson.  Fluttar voru hátíðarræður og meðal þeirra sem tóku til máls voru Örn Gunnarsson, fjölumdæmisstjóri, Hörður Sigurjónsson, umdæmisstjóri 109 B og Þorgrímur Vilbergsson úr Lionsklúbb Stykkishólms.  Lionskórinn hélt sína frumraun undir stjórn Ragnars Jónssonar undirleikara og Tónlistarskólastjóra og var kórinn hljómþýður og líklegur til afreka í framtíðinni..  Nokkur frumsamin skemmtiatriði voru á boðstólum og drengjatríóið Góðir landsmenn skemmti með söng og gleðisögum.  Fljótlega munu koma myndir frá hátíðinni á vefinn.

5. feb. 2002
Fjórir nýjir félagar !

Á 10. fundi Lionsklúbbs Patreksfjarðar sem haldin var þann 3. febrúar voru við hátíðlega athöfn teknir inn fjórir nýjir félagar. Þeir eru Einar Ásgeir Ásgeirsson, Guðmundur Óskar Hermannsson, Magnús Jónsson og Ólafur Halldórsson og er þá félagatalan komin í 29 félaga.  Vefurinn býður nýja félaga velkomna og óskar þeim velfarnaðar í starfi fyrir klúbbinn í framtíðinni.   

 

  Til baka á forsíðu